Tenging – Sýningaropnun í Hallgrímskirkju – Sunnudaginn 18. janúar – Aðgangur ókeypis

Sigtryggur | Listamannaspjall um 365 daga í Grasagarðinum við sýningarlok
Listamannaspjall um 365 daga í Grasagarðinum við sýningarlok | Sunnudaginn 11. janúar kl. 15:00 í Hallgrímskirkju
09/01/2015
Tónleikar tónlistardeildar Listaháskólans í Hallgrímskirkju laugardaginn 28.2. kl. 16
Tónleikar tónlistardeildar Listaháskólans í Hallgrímskirkju laugardaginn 28.2. kl. 16
27/02/2015

Tenging – Sýningaropnun í Hallgrímskirkju – Sunnudaginn 18. janúar – Aðgangur ókeypis

Tenging - Sýningaropnun í Hallgrímskirkju - Sigurður Guðjónsson

Opnun sýningar videólistamannsins Sigurðar Guðjónssonar TENGING verður í forkirkju Hallgrímskirkju sunnudaginn 18. janúar 2015 við messulok kl. 12. Sýningin er opin alla daga kl. 9-17 og er aðgangur ókeypis.

Við opnunina verður boðið upp á léttar veitingar. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Sigurður Guðjónsson (f. 1975) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Billedskolen í Kaupmannahöfn og framhaldsnám við Akademie Der Bildenden Kunste í Vínarborg. Videoverk Sigurðar hafa verið sýnd á fjölmörgum einka- og samsýningum, meðal annars í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, TBA21 Vínarborg, Liverpool Biennial, Frankfurter Kunstverein, Bergen Kunsthall, Hamburger Bahnhof, Tromsø Kunstforening og Arario Gallery í Peking.

Hendur á hægri hreyfingu í dáleiðandi hrynjandi endurtekningar – það eru myndbrotin, á skjám báðum megin inngangsins, sem komumenn sjá í Hallgrímskirkju. Það er vídeoverkið Tenging frá 2012 eftir íslenska listamanninn Sigurð Guðjónsson (f. 1975). Hljóð- og ljósheimur þessa svart-hvíta vídeoverks er draumkenndur – jafnvel ógnvænlegur – íhugun um hreyfingu, efni og hljóð.

Sigurður hefur áður gert nokkur ávirk vídeóverk um snertiskyn, verk sem höfða til skynjunar og laða áhorfendur að verkunum. Þessi verk eru unnin eða aðlöguð að sýningarrýmum og svo er um verkið sem sýnt er í Hallgrímskirkju. Saman mynda hljóð, mynd, húsbyggingin, mannlíf hennar og sýningarrýmið eina listheild.
Í verkinu Tenging (2012) eru hljóð og mynd ósamhæfð sem skapar hliðheim. Verkið kveikir tengsl milli þess hliðheims og rýmis kirkjunnar og vekur tilfinningu fyrir helgitíma í helgirými sem þó er í borgarpúlsinum. Franski heimspekingurinn Michel Foucault nefndi slíka hliðheima heterotopias (1984). Þeir væru skýrt aðgreindir frá samhengi sínu, en gætu kveikt upplifun á merkingarlögum (sbr. raunveröld og handanvera) og ólíkum tímum (í verki Sigurðar er hægt á tíma) en einnig skýrt notkun í tengslum við umhverfi og samhengi: Að kirkjan nýtist sem tilbeiðslurými, vettvangur fyrir trúarlegt samfélag þar sem helgisiðir eiga heima og eru framkvæmdir.

Vídeóverkið Tenging er þungbúin, beinskeitt, seiðandi síbylja og vekur vitund um kyrru kirkjurýmisins sem þjónar íhygli og íhugun fólks.
Vídeóverkið beinir vitund að snertiskynjun við meðferð og strokur hringja og umbreytir þeim í einföld en ávirk tæki sem gefa frá sér hljóð í líkingu við tíbetskar bænabjöllur. Hljóðin vísa einnig til hins stórfenglega orgels kirkjunnar sem er frægt fyrir hinar 5275 pípur.

Pdf - Icon Grein úr sýningarskrá eftir Ann-Sofie Gremaud, PhD og listsagnfræðingur- þýðing dr. Sigurður Árni Þórðarson.