Sýning Ingu S. Ragnarsdóttur VOTIV- ÁHEIT opnuð á Hvítasunnudag kl. 12.15 í Hallgrímskirkju

VOKAL NORD
Draumurinn- á leið á landnemaslóðir – VOKAL NORD og Schola cantorum- tónleikar fimmtudaginn 3. maí kl. 20
02/05/2018
Hallgrímskirkja
Aðalfundarboð miðvikudaginn 20. júní kl. 17
06/06/2018

Sýning Ingu S. Ragnarsdóttur VOTIV- ÁHEIT opnuð á Hvítasunnudag kl. 12.15 í Hallgrímskirkju

VOTIV- ÁHEIT

VOTIV- ÁHEIT er yfirskrift nýrrar sýningar Ingu S. Ragnarsdóttur, sem sýnir á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju og opnar sýningin við lok hátíðarmessu á hvitasunnudag um kl. 12.15.

Allir eru hjartanlega velkomnir og hvattir til að taka þátt messunni, þ.s. mikill tónlistarflutningur er og listakonan er kynnt í messulok. Messunni er útvarpað er beint á Rás 1 og syngur Mótettukór Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar og Björn Steinar Sólbergsson leikur á Klaisorgelið, en prestar eru sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir og sr. Sigurður Árni Þórðarson og lesið er á mörgum tungumálum í tilefni af hátíð heilags anda. Sýningin er síðan formlega sett í forkirkjunni um kl. 12.15 og Hallgrímssöfnuður býður upp á léttar veitingar. Sýningarstjóri er Rósa Gísladóttir.

Sýningin stendur í allt sumar og lýkur í lok september. Opið er alla daga frá kl. 9-21 í sumar og er aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Um sýninguna:

Áheit / Votiv

Á þýsku er orðið Votiv notað yfir áheit eða fórnargjöf en það er líka til í mörgum öðrum málum, t.d. í ensku votive og í frönsku votif; orðin eru komin úr latínu votivus ‘lofaður’. Fórnargjafir hafa verið hluti ólíkra menningarheima í aldanna rás, þær fyrstu sem vitað er um í Evrópu eru frá steinöld. Í kristindómi náðu venjurnar í kring um fórnargjafir hámarki á barokktíma. Það er í þeirri birtingarmynd sem Inga S. Ragnarsdóttir kynnist þessum venjum. Fyrir ungan myndhöggvara frá Íslandi virkuðu ofhlaðnar barokk-kirkjur Suður-Þýskalands rétt eins og framandi hof í fjarlægum heimi. Hún tengdi við hefðir votiv-gjafanna þar sem áheit eru ríkur þáttur í íslenskum menningararfi, til dæmis áheitin á Strandakirkju í Selvogi. Kirkjurnar urðu fljótt innblástur fyrir Ingu en þar kynntist hún efnivið sem hún hefur unnið í alla tíð siðan.

Um er að ræða stucco-marmara, sem er í raun gervimarmari búinn til úr blöndu af gipsi, beinalími og litadufti. Nú á dögum hefur arfleifð handverks og listsköpunar sem spratt af hinum manngerða efniviði nánast horfið.

Í höndum Ingu S. Ragnarsdóttur fær hann þó nýtt líf. Sem myndhöggvari tekst hún á við efnið og litinn og mótar í form. Þessi form eru nú til sýnis í forrými Hallgrímskirkju.

Stucco-skúlptúrarnir sem eru festir þar á veggi taka mið af fórnargjöfunum fyrri alda.

Inga hefur í verkum sínum glímt við spurningar um hringrás náttúrunnar, samband mannsins og umheimsins og velt fyrir sér samhenginu þar á milli.

Á tímum barokksins, í tíð séra Hallgríms Péturssonar sálmaskálds, voru kirkjurnar frjósamur vettvangur listanna. Inga tengist þessari hefð með nýstárlegum hætti og leggur út frá fórnargjöfum sem eru táknmyndir innsta kjarna mannsins sem og þess veraldlega, en velferð alls er háð heilun jafnt efnislegri sem andlegri.

(úr grein Dorothée Kirch um sýninguna)

Inga S. Ragnarsdóttir myndlistarmaður (f. 1955) ólst upp í Reykjavík, stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Akademíuna í München, Diplóma 1987. Starfandi myndlistarmaður bæði í Þýskalandi og á Íslandi. Hefur verið gestakennari við Myndlistaskólann í
Reykjavík og Listaháskóla Íslands og haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða bæði í Þýskalandi og á Íslandi. Hefur auk þess starfað sem sýningarstjóri og unnið að rannsóknum sem tengjast upphafi nútímamyndlistar í íslensku samfélagi. Efni þessara rannsókna vann hún í samstarfi við Krístínu G. Guðnadóttur listfræðing og var það gefið út 2017 í bók sem heitir Útisýningar á Skólavörðuholti 1967-1973.
Hún hefur haldið fjölmargar sýningar víða um heim og útilistaverk hennar eru m.a. á opinberum svæðum í München og Düsseldorf í Þýskalandi.

Áheit / Votiv

Á þýsku er orðið Votiv notað yfir áheit eða fórnargjöf en það er líka til í mörgum öðrum málum, t.d. í ensku votive og í frönsku votif; orðin eru komin úr latínu votivus ‘lofaður’. Fórnargjafir hafa verið hluti ólíkra menningarheima í aldanna rás, þær fyrstu sem vitað er um í Evrópu eru frá steinöld. Vopn eða skartgripir urðu fyrir valinu til að byrja með. Síðar meir voru aðallega notaðar myndir af ýmsu tagi. Venjurnar breyttust með trúarbrögðum en alltaf fundu menn hjá sér þörfina fyrir að biðja um eða þakka fyrir eitthvað einstakt og mikilvægt í lífinu.
Í kristindómi náðu venjurnar í kring um fórnargjafir hámarki á barokktíma. Það er í þeirri birtingarmynd sem Inga S. Ragnarsdóttir kynnist þessum venjum. Fyrir ungan myndhöggvara frá Íslandi virkuðu ofhlaðnar barokk-kirkjur Suður-Þýskalands rétt eins og framandi hof í fjarlægum heimi. Hún tengdi við hefðir votiv-gjafanna þar sem áheit eru ríkur þáttur í íslenskum menningararfi, til dæmis áheitin á Strandakirkju í Selvogi.

Kirkjurnar urðu fljótt innblástur fyrir Ingu en þar kynntist hún efnivið sem hún hefur unnið í alla tíð siðan. Um er að ræða stucco-marmara, sem er í raun gervimarmari búinn til úr blöndu af gipsi, beinalími og litadufti. Stucco-marmari var fyrst notaður af byggingarmeisturum í stað alvöru marmara til að minnka kostnað við glæsilegar byggingar. Kostnaðarsamt var að höggva og flytja náttúrulegan marmara úr fjarlægum grjótnámum. Með tímanum breyttist það og stucco var notaður í meira mæli vegna listrænna eiginleika sinna. Með stucco sem efnivið var byggingarlistamönnum frjálst að búa til eigin litasamsetningar sem fyrirfinnast ekki frá nátturunnar hendi. Nú á dögum hefur arfleifð handverks og listsköpunar sem spratt af hinum manngerða efniviði nánast horfið. Í höndum Ingu S. Ragnarsdóttur fær hann þó nýtt líf. Sem myndhöggvari tekst hún á við efnið og litinn og mótar í form. Þessi form eru nú til sýnis í forrými Hallgrímskirkju. Stucco-skúlptúrarnir sem eru festir þar á veggi taka mið af fórnargjöfunum fyrri alda. Á suðurvegg eru tveir stórir diskar, bláir og hvítir, nánast eins og plánetan jörð séð utan úr geimnum. Á veggnum á móti eru mörg minni verk þar sem rauður litur blandast hvítu gipsi. Formin eru fljótt á litið óhlutstæð en hægt er að greina fót og ennfremur hjarta, nýra og lifur.

Inga hefur í verkum sínum glímt við spurningar um hringrás náttúrunnar, samband mannsins og umheimsins og velt fyrir sér samhenginu þar á milli. Á tímum barokksins, í tíð séra Hallgríms Péturssonar sálmaskálds, voru kirkjurnar frjósamur vettvangur listanna. Inga tengist þessari hefð með nýstárlegum hætti og leggur út frá fórnargjöfum sem eru táknmyndir innsta kjarna mannsins sem og þess veraldlega, en velferð alls er háð heilun jafnt efnislegri sem andlegri.

Dorothée Kirch