Matteusarpassían eftir J.S. Bach í Hallgrímskirku á föstudaginn langa 30. mars 2018 kl. 18

SYNJUN / REFUSAL - Kristín Reynisdóttir
Kristín Reynisdóttir: SYNJUN / REFUSAL- sýningaropnun sunnudaginn 25. febrúar kl. 12.15
23/02/2018
Stjórn Listvinafélagsins
Aðalfundur Listvinafélags Hallgrímskirkju mánudaginn 12. mars nk. kl. 17
26/02/2018

Matteusarpassían eftir J.S. Bach í Hallgrímskirku á föstudaginn langa 30. mars 2018 kl. 18

Hannah Morrison

Hörður Áskelsson stjórnar Matteusarpassíu Johanns Sebastians Bachs

„Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“

Matteusarpassía Bachs, sem er stundum kölluð drottning allra tónverka, verður flutt á Akureyri og í Reykjavík í dymbilvikunni af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammerkór Norðurlands, Hymnodiu, Stúlknakór Akureyrarkirkju/Barna- og unglingakór Hallgrímskirkju og frábærum einsöngvurum undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Það er ævinlega mikill viðburður þegar Matteusarpassían er flutt. Verkið á afar merkilega sögu, en það lá að mestu í gleymskunnar dá í tæpa öld, ásamt öðrum verkum Bachs (1685-1750), þar til hinn tvítugi Felix Mendelssohn stjórnaði flutningi þess á sögufrægum tónleikum í Berlín þann 11. mars 1829. Það varð upphafið að endurreisn Bachs, sem enn stendur, og allar götur síðan stafar sérstökum ljóma af Matteusarpassíunni, „mesta kirkjutónverki sögunnar“, eins og Mendelssohn fullyrti sjálfur.

Kynning á Matteusarpassíunni eftir J.S. Bach

Í Matteusarpassíunni er píslarsaga Jesú Krists sögð eins og hún kemur fyrir í síðustu köflum Matteusarguðspjalls. Bach túlkar atburði frásagnarinnar, síðustu kvöldmáltíðina, svik Júdasar, handtöku Jesú, yfirheyrslur, píningu, krossfestingu og dauða, með ómótstæðilegum þunga í sönglesum, aríum, kórköflum og sálmversum. Píslarsagan er tónmáluð í mikilfenglegum myndum þar sem brennipunkturinn er með jöfnu millibili færður frá Jerúsalem fyrstu aldar til samvisku nútímans. Í verkinu er fullkomið jafnvægi á milli dramatískrar framvindu sögunnar og innhverfari þátta, á milli djúprar íhugunar og glóandi ástríðu.

Matteusarpassían er viðamesta verk Bachs. Það tekur um þrjár klukkustundir í flutningi og er samið fyrir sjö einsöngvara, tvo kóra, tvær hljómsveitir og barnakór. Alls koma um 100 flytjendur fram við flutning verksins að þessu sinni.

Einsöngvarahópurinn er sérlega glæsilegur. Hin skosk-íslenska Hannah Morrison, ein af virtustu barokksöngkonum samtímans, syngur sópranhlutverkið, hlutverk Jesú Krists er í höndum Kristins Sigmundssonar, en hlutverk guðspjallamannsins verður túlkað af danska tenórnum Valdemar Villadsen, sem er rísandi stjarna í óperuheiminum. Aðrir einsöngvarar eru í fremstu röð ungra íslenskra söngvara, þau Elmar Gilbertsson, Oddur Arnþór Jónsson, og Hildigunnur Einarsdóttir.

Stjórnandi tónleikanna, Hörður Áskelsson, listrænn stjórnandi Listvinafélags Hallgrímskirkju, hefur stjórnað öllum stærstu verkum Bachs með kórum sínum í Hallgrímskirkju við frábærar undirtektir. Í fimm stjörnu dómi um túlkun hans á Matteusarpassíunni á Kirkjulistahátíð 2005 kom fram að „kærleiksboðskapur gegnsýrði flutning allrar passíunnar“.

Matteusarpassían hljómar í Menningarhúsinu Hofi á skírdag, 29. mars, kl. 16 (í fyrsta sinn á Akureyri) og í Hallgrímskirkju í Reykjavík á föstudaginn langa, 30. mars, kl. 18.

Tónleikarnir eru samstarfsverkefni Menningarfélags Akureyrar og Listvinafélags Hallgrímskirkju.

Miðasala er á Mak.is og í verslun Hallgrímskirkju s. 510 1000. Sjá nánar listvinafelag.is- mak.is