Gretar Reynisson: 501 nagli – síðasta sýningarhelgi 19. -21. ágúst 2017

Sólveig Anna Aradóttir
Sólveig Anna Aradóttir á síðustu fimmtudagstónleikum Alþjóðlegs orgelsumars 17. ágúst kl. 12
16/08/2017
Christine Ödlund og Fredrik Söderberg, Alpha & Omega
ALPHA & OMEGA OPNUN SÝNINGAR Í HALLGRÍMSKIRKJU FÖSTUDAGINN 25. ÁGÚST KL. 18
24/08/2017

Gretar Reynisson: 501 nagli – síðasta sýningarhelgi 19. -21. ágúst 2017

Gretar Reynisson

Síðasta sýningarhelgi sýningar Gretars Reynissonar myndlistarmanns, 501 nagli í Hallgrímskirkju er nú um helgina.

Sýning Gretars Reynissonar myndlistarmanns, 501 nagli í Hallgrímskirkju, sem sett er upp í tilefni Siðbótarafmælisins hefur vakið mjög mikla athygli allra þeirra tugþúsunda gesta sem hafa heimsótt Hallgrímskirkju í sumar! Einn merkimiði hangir á nagla fyrir hvert ár frá 1517 -2017= 501 NAGLI og magnað að sjá þegar vindurinn hreyfir við miðunum, sem hanga í beinni röð uppi við loft allan hringinn í forkirkjunni!

Tilvalið að líta við t.d á Menningarnótt – enginn aðgangseyrir!
Kirkjan er opin alla helgina frá 9:00 – 21:00.

Sýningin vísar til þess að hinn 31. október 1517 negldi Marteinn Lúther 95 mótmælagreinar gegn aflátssölu kaþólsku kirkjunnar á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg í Þýskalandi. Og markaði sá atburður upphaf siðbótarinnar.

Eins og fram kemur í umfjöllun Steins Arnar Atlasonar í sýningarskrá vísar verkið 501 nagli í gjörning Lúthers með beinum hætti, bæði í naglana sem voru notaðir til að festa greinarnar á kirkjudyrnar og í að 500 ár eru liðin frá því að atburðurinn átti sér stað. Gretar hefur stimplað 501 merkimiða, hvern með einu ártali frá 1517 til 2017, og neglt þá á veggina í forkirkju Hallgrímskirkju. Verkið, sem er unnið sérstaklega fyrir Hallgrímskirkju, er annars vegar mótað af tímatalinu mældu í árum og hins vegar af upplifun og sjó nrænni framsetningu tímans. 501 nagli kallast á við önnur verk Gretars frá síðustu tveim áratugum þar sem hann glímir við tímann.

Gretar Reynisson (f. 1957) lauk myndlistarnámi frá Nýlistadeild Myndlistar¬ og handíðaskóla Íslands 1978 og var við framhaldsnám í Amsterdam 1978–79. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis. Umsjónarmaður sýningarinnar er Rósa Gísladóttir. Sýningin stendur til kl. 21 þann 21. ágúst 2017.